D. H. Lawrence
Þó svo að rithöfundurinn D. H. Lawrence, eða David Herbert Richards Lawrence eins og hann hét fullu nafni, hafi verið mjög umdeildur meðan hann lifði (bækur hans bannaðar og hann sakaður um njósnir og að vera ,,klámhundur''), er hann í dag viðurkenndur sem einn af brautryðjendum nútíma-skáldsögunnar og þykir í hópi bestu rithöfunda sem England hefur alið.
Lawrence náði ekki háum aldri, (lést á 45. aldursári) en afköst hans voru mikil og hann skrifaði jöfnum höndum skáldsögur, smásögur, ljóð, leikrit, ritgerðir, ferðabækur og bókmenntagagnrýni. Þá lagði hann stund á málaralist með ágætum árangri. Var hann einn fyrsti höfundurinn til að vekja athygli á mörgum þeim slæmu áhrifum sem nútímavæðing og iðnbyltingin hafði á líf fólks. Af þekktum verkum eftir hann má nefna skáldsögurnar Lady Chatterley's Lover og Sons and Lovers.
Lawrence fæddist 11. september árið 1885 í Eastwood, Nottinghamshire á Englandi. Var hann fjórða barn hjónanna Arthur John Lawrence og Lydia Beardsall. Bjuggu þau við erfið lífsskilyrði. Arthur var drykkfelldur námuverkamaður, nánast ómenntaður á bókina en Lydia hafði verið skólakennari áður en hún giftist Arthur. Þótti samsetningin nokkuð óvenjuleg og gekk töluvert á í hjónabandinu. Lýsti Lawrence þeim átökum og þeirri spennu sem ríkti á heimilinu síðar í bókinni Sons and Lovers.
Lawrence var mjög náinn móður sinni og hneigðist meira að áhugamálum hennar. Stóð hann sig vel í námi og hlaut styrk til framhaldsnáms. Varð hann þó að gera hlé á námi sínu vegna heilsuleysis, en hann veiktist ungur af lungnabólgu. Hann náði þó að úskrifast sem kennari árið 1907 þegar hann var 22 ára gamall. Kenndi hann í nokkur ár eftir það.
Árið 1910 lést móðir hans en hún hafði þá verið veik um skeið af krabbameini. Hjálpaði Lawrence henni við að skilja við lífið með því að gefa henni stóran skammt af svefnlyfjum. Tók hann lát hennar mjög nærri sér, enda höfðu þau alla tíð verið mjög náin.
Það var fyrst árið 1909 að fyrstu ljóð hans komu fyrir sjónir almennings í ritinu The English Review. Með útkomu fyrstu skáldsögunnar The White Peacock árið 1911 var framtíðin ráðin og hann ákvað að helga sig ritstörfum.
Árið 1912 kynntist hann og varð ástfanginn af Friedu von Richthofen, sem var gift kona og þriggja barna móðir. Frieda endurgalt ást hans og fór í kjölfarið frá manni og börnum til að vera með Lawrence. Flúðu þau til Bavaríu í Þýskalandi þar sem fjölskylda Friedu bjó. Þar var Lawrence hnepptur í stutt varðhald vegna gruns um að hann væri breskur njósnari. Frá Þýskalandi héldu þau til Ítalíu þar sem þau dvöldu um tíma.
Sagan Sons and Lovers kom út árið 1913, en hún byggir að mestu á æsku hans og uppvexti. Vakti hún töluverða athygli, ekki síst fyrir nöturlegar lýsingar á aðbúnaði og aðstæðum verkamanna á Englandi.
Við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1914 sneru þau aftur til Englands þar sem Lawrence giftist Friedu. En stríðið hafði vakið upp tortryggni Englendinga á útlendingum og urðu þau hjónin fyrir töluverðu áreiti bæði frá einstaklingum og yfirvöldum. Gekk það svo langt að yfirvöld sökuðu þau um njósnir og voru þau gerð brottræk frá Cornwall árið 1917. Ekki bætti úr skák að Lawrence var mikill friðarsinni og hafði mótmælt stríðinu nokkuð kröftuglega í ræðu og riti.
Á þessum árum höfðu þau nánast ekkert til að lifa á og bjuggu við mikla fátækt og skort. Bækur hans fengust ekki gefnar út, en sagan The Rainbow (1915) var tekin úr umferð af því að hún þótti hneykslanleg og framhald þeirrar sögu, Women in Love, sem í dag þykir sannkallað meistaraverk og lykilbók í nútímaskáldsögum, fékkst ekki gefin út.
Eftir brottreksturinn frá Cornwall flæktust þau frá einum stað til annars og á endanum veiktist Lawrence árið 1919 af inflúensu sem næstum því varð honum að aldurtila. Ekki gátu þau flutt frá Englandi því vegabréf þeirra höfðu verið gerð upptæk.
En svo árið 1919 fengu þau leyfi yfirvalda til að fara af landi brott. Eftir það var ævi þeirra eitt langt ferðalag með stuttri viðdvöl hér og þar. Fyrst lá leiðin til Ítalíu, þaðan til Austurríkis, Þýskalands, Sri Lanka, Ástralíu, Norður-Ameríku og Mexíkó. Frá 1919 kom Lawrence einungis tvisvar til Englands í stutta heimsókn.
Árið 1922 höfðu þau í hyggju að setjast að í Bandaríkjunum og náði sú áætlun svo langt að Lawrence fjárfesti í búgarði í Nýju-Mexíkó, sem hann greiddi fyrir með sögunni Sons and Lovers. Var það í fyrsta og eina sinn sem hann átti sitt eigið heimili. Þar skrifaði hann töluvert og virðist almennt hafa liðið vel. En árið 1925 veiktist hann hastarlega af berklum og malaríu. Þó svo að hann næði sér að nokkru ákváðu þau hjónin í kjölfarið að flytja aftur til Evrópu. Settust þau að nærri Flórens á Ítalíu þar sem hann skrifaði m.a. síðustu löngu söguna og sem hann er hvað þekktastur fyrir, Lady Chatterley's Lover árið 1928. Hélt hann áfram að semja alveg fram í andlátið, en hann lést í Frakklandi árið 1930 af völdum berkla.
Frieda eiginkona hans giftist aftur og flutti á á búgarðinn þeirra í Nýju-Mexíkó. Lét hún sækja jarðneskar leifar Lawrence og grafa þær þar.
Rithöfundurinn
Eins og áður hefur komið fram var Lawrence einn af upphafsmönnum nútíma-skáldsögunnar og tókst á við áleitin umfjöllunarefni í skrifum sínum. Eitt af því sem einkennir sögur hans er aðlögun mannsins í nýjum heimi tækniframfara. Þá skrifaði hann á opinskáan hátt um samskipti kynjanna og kynlíf sem vakti hneykslan margra í þá daga. Sögur eins og Lady Chatterley's Lover voru t.a.m. bannaðar á Englandi og víðar lengi vel og þóttu ósiðsamar. Hefur hann gjarnan verið flokkaður sem raunsæisrithöfundur en slík flokkun á varla vel við, því skrif hans voru mjög persónuleg og endurspegla bæði raunverulegan og ímyndaðan heim hans sjálfs.
Það er vert að geta þess að Lawrence tók upp á því að mála á síðustu árum sínum og þykja myndir hans ágætar.